GODO Articulates

Markmið: Hámarka tekjur og bókanir þegar Covid-19 er lokið.

Undanfarin ár hefur samkeppni á hótelmarkaði farið harðnandi samhliða auknu framboði. Kröfur ferðamanna um sanngjörn verð, gæði, upplifanir og þjónustu hafa einnig aukist og mikilvægt fyrir fyrirtæki að standa undir væntingum gesta þannig að þeir fái það virði úr viðskiptum sem þeir vænta á sama tíma og fyrirtækið fái eins gott verð og mögulegt er hverju sinni fyrir vöruna. 

Nú kveður við annan tón í ferðaþjónustu um heim allann og erfitt að segja til um hvenær ferðalög verða jafn tíð og þau voru fyrir Covid-19. Á þessum fordæmalausu tímum er mikilvægt fyrir stjórnendur hótela að nota tímann vel til að greina og fín-stilla alla þætti starfseminnar. Það gefst sjaldan jafn góður tími til þess að hreinsa til í kjallaranum og einmitt núna þegar fáir eða engir gestir eru að heimsækja hótelið.

„Í öflugu viðskiptaumhverfi er verðstýring í senn bæði lífsnauðsynleg og flókin – sérstaklega þegar markaðurinn breytist hratt„

Virk verðstýring er mjög mikilvæg, sér í lagi í síbreytilegu rekstrarumhverfi og við markaðsaðstæður sem breytast hraðar en nokkru sinni fyrr. Það er því að mörgu að huga og höfum við tekið saman helstu atriði sem hafa þarf í huga til að ná góðum árangri í verðstýringu. 

Breytileg verðlagning

Með tækniþróun sem gerir breytilega verðstýringu auðvelda hefur verðlagning fyrir hótel og gististaði breyst mikið síðustu ár. Það heyrir nánast sögunni til að bjóða föst verð eftir árstíðum líkt og tíðkaðist hér áður fyrr. Nú er fremur horft í framboð, eftirspurn, samkeppnisaðila o.fl sem góður hugbúnaður er fljótur að læra að lesa. Verðlagning er vandasöm og erfitt getur reynst að finna“rétt” verð sem er í takt við væntingar gesta hverju sinni. Með hjálp algríms (e.algorithm) geta verðstýringatól á borð við Godo Primo reiknað út hvenær á að hækka og lækka verð með tilliti til breytna sem geta verið mismunandi eftir staðsetningu, samkeppnisaðilum, stærð hótels og fleiru. Ef ekki er notast við verðstýringartól er mikilvægt að vera vakandi fyrir sveiflum og nýta breytilega verðlagningu til að standa sterkt á markaði. 

Verðflokkar og takmarkanir

Draumur allra hótelstjóra er að finna hið fullkomna verð á vöru sem skilar bæði sem mestu í bókhaldið ásamt því að vera fullkomlega í takt við væntingar kaupandans. Þegar kemur að uppsetningu á verðflokkum fyrir hótel og gististaði, þá skiptir miklu máli að átta sig á og þekkja þarfir mögulegra kaupenda hvort sem um ræðir ferðaskrifstofur, hópa eða einstaklinga. Hinn eini rétti verðflokkur finnst ekki nema tillit sé tekið til væntinga gesta, afpöntunar-reglna, dvalartíma, árstíma og fjölda gesta

Verðstýring og viðskiptagreind

Við nýtum okkur tæknina sífellt meira til þess að taka yfir ákveðna þætti í daglegu lífi okkar hvort sem er í vinnu eða heima fyrir. Við sjáum þetta bersýnilega þegar kemur að verðstýringu fyrir hótel og gististaði. Með því að nýta sér kerfi sem býður upp á viðskiptagreindar-algoritma sem notar upplýsingar um allt frá samkeppni, meðaltali verðflokka, birgðum og kröfum á markaði fáum við bæði góða innsýn og áreiðanleg gögn sem annars er mjög tímafrekt að kalla fram og meta handvirkt. Að beita reglum og stillingum í þessum reikniritum sem miða við sérstakar þarfir tiltekinnar eignar, fylgjast stöðugt með og aðlaga kerfið í samræmi við þróun er lykilatriði til að ná sem bestum árangri þegar kemur að verðstýringu.

Hvenær er nauðsynlegt að hækka eða lækka verð?

Þó svo að viðskiptagreind sér að ryðja sér æ meira rúms á markaði í dag er mannlegi þátturinn í verðstýringu enn ómetanlegur í greiningu. Ekki er hægt að mæla öll gildi með reikniriti eða viðskiptagreind og því er mikilvægt að geta tekið ákvarðanir í tengslum við markaðsstefnu og sérstöðu við rekstur. Það er því mikilvægt að skilja bæði efsta og neðsta þröskuldinn á verðbili tiltekinna vöruflokka og hvenær er nauðsynlegt að lækka eða hækka verðin. Því er nauðsynlegt að geta svarað spurningum á borð við:

  • Er afslátturinn á ákveðnum tímabilum of hár ?
  • Fáum við sama fjölda bókana ef verðið á herberginu er aðeins dýrara ?
  • Þarf ég að lækka verðið á herberginu yfir jólavertíðina

Þessar spurningar skipta reksturinn gríðarlega miklu máli ef svörin við þeim byggja á vel ígrundaðri verðstýringu.  

Þar sem það búa ekki öll hótel svo vel að hafa starfsfólk á sínum snærum sem flokkast undir sérfræðinga á sviði verðstýringar þarf oft að leita út fyrir veggi rekstrarins til þess að sækja þá sérfræðiþekkingu.

Rekstrarþjónustur fyrir hótel og gististaði

Hótel og gististaðir eru í sí-vaxandi mæli byrjuð að útvista hluta starfsemi sinnar til fyrirtækja sem sérhæfa sig á sviði verðstýringar, söluhagræðingar, gestasamskipta og bókunarskrifstofa. Ávinningur af útvistun er margþættur og felur oftar en ekki í sér endurskipulagningu rekstrarins sem leiðir til minni rekstrarkostnaðar, aukinnar sölu og það sem mikilvægast er af öllu, jákvæðari gesta-upplifunar.

Góð verðstýring er án efa einn mikilvægasti þátturinn í árangursríkum hótelrekstri ef henni er gefin góður gaumur. Velta hótela á ársgrundvelli breytist til betri vegar á skömmum tíma ef verðstýring er tekin til greina og tekin alvarlega. Kraftmikil og samkeppnishæf verðlagning, vel skilgreindir verðflokkar, takmarkanir, viðskiptagreind og eftirspurn á markaði eru aðeins hluti af þeim þáttum sem þarf að hafa í huga við innleiðingu á trúverðugri viðskiptaáætlun fyrir hvert hótel.

Framtíð ferðaþjónustunnar

Það er engin spurning að heimsfaraldurinn hefur haft skelfileg áhrif á ferðaþjónustu um heim allan. Það er þó von allra að ferðaþjónustan nái sér á strik sem fyrst með jákvæðum breytingum í för með sér.  Ef marka má þær sviðsmyndir sem danska framtíðar rannsóknarstofnunin setti fram á fundi ANTOR (Association of National Tourist Office Representatives) þann 23. apríl 2020, þá verður lögð sérstök áhersla í ferðaþjónustu, eftir að Kórónufaraldrinum lýkur, á traust, öryggi, heilsu, sjálfbærni og síðast en ekki síst á tæknivæðingu og sjálfvirkni.

Það er ljóst að verðstýring kemur til með að verða byggð enn frekar á tækni og sjálfvirkni í framtíðinni líkt og fleira í ferðaþjónustu  Verðstýring er flókin og það þarf að huga að mörgum breytum til að vel takist til. Það er mikilvægt að huga að þessum málum fyrr en seinna og vera vel undirbúin þegar heimurinn fer að ferðast á ný.